Yrsa Sigurðardóttir

Yrsa Sigurðardóttir (1963) er í hópi fremstu glæpasagnahöfunda Norðurlanda, að mati breska stórblaðsins The Times. Yrsa vakti mikla athygli þegar hún sendi frá sér sína fyrstu glæpasögu, Þriðja táknið haustið 2005. Áður en sagan kom út á íslensku hafði útgáfurétturinn verið seldur víðar en dæmi voru áður um þegar um íslenskt verk er að ræða. Þá hafði verið gengið frá samningum um útgáfu á bókinni á ellefu tungumálum í yfir þrjátíu löndum. Þriðja táknið hefur komið út á yfir 30 tungumálum  í yfir 100 löndum í öllum byggðum heimsálfum veraldar.

Önnur glæpasaga Yrsu, Sér grefur gröf, kom út hjá Veröld í nóvember 2006 en útgáfurétturinn á henni hafði þá þegar verið seldur um allan heim, m.a. til Bandaríkjanna, Bretlands, Þýskalands, Ítalíu og til allra spænskumælandi landa heims. Brakið eftir Yrsu var valið besta norræna glæpasagan í Bretlandi árið 2014.  Verk hennar koma nú út við miklar vinsældir um allan heim. Sigurjón Sighvatsson vinnur nú að gerð bíómyndar eftir Ég man þig og sjónvarpsseríu sem byggð verður á bókum hennar um Þóru lögmann.

Yrsa Sigurðardóttir hóf feril sinn sem barnabókahöfundur árið 1998 með bók sinni Þar lágu Danir í því. Hún hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin árið 2003 fyrir Biobörn. Árið 2000 fékk hún viðurkenningu Barnabókaráðs Íslands, Íslandsdeildar IBBY, fyrir bókina Við viljum jólin í júlí.

Meðfram skriftum starfar Yrsa sem verkfræðingur í Reykjavík.

Glæapasögur Yrsu eru:

Þriðja táknið 2005

Sér grefur gröf 2006

Aska 2007

Auðnin 2008

Horfðu á mig 2009

Ég man þig 2010

Brakið 2011

Kuldi 2012

Lygi 2013

DNA 2014

Sogið 2015

Aflausn 2016